mánudagur, 18. janúar 2021

RANNÍS úthlutar fé til rannsókna í Svarfaðardal og Hörgárdal

Verkefnið heitir Völd, auður og pest í tveimur dölum: Svarfaðardalur, Hörgárdalur og nágrenni um 870/1500. Verkefnisstjórar eru Árni Daníel Júlíusson, Hugvísindasviði, Háskóla Íslands og Ramona Harrison, Háskólanum í Bergen, Noregi. Verkefnið hefur verið í gangi í einu eða öðru formi í nokkur ár og er talað um það sem „Tvídælu“ eða „Two Valleys“ á ensku. 

Markmið verkefnisins er að svara spurningum um þróun stéttaskiptingar í tveimur dölum norðanlands, Svarfaðardal og Hörgárdal á tímabilinu 870 - 1500. Þetta er meginvandamál í íslenskri sagnfræði sem hefur aldrei fengið nægilega athygli. Ýmislegt bendir til þess að hópur sjálfseignarbænda hafi komið sér fyrir í dölunum fyrst á tímabilinu, um 870-1100. Það er hins vegar ljóst að þegar ritheimildir koma til, rétt fyrir 1200, var orðin til mikil og skýr stéttaskipting í Svarfaðardal og Hörgárdal. Hvernig og af hverju gerðist þetta? Tilgátan um að til hafi verið samfélag sjálfseignarbænda verður prófuð með rannsóknum í Fram-Svarfaðardal, þar sem vísbendingar um samfélag frjálsra bænda skortir en vísbendingar eru annars um byggð á tímabilinu 870-1100. Skortur á rituðum heimildum fyrir þetta tímabil gerir að verkum að fræðilegum vandamálum sem í eðli sínu eru félagssagnfræðileg verður aðeins svarað með fornleifafræðilegum og vistfræðilegum rannsóknum. Gögn úr rituðum heimildum hafa leitt til að tvær spurningar frá tímabilinu 1100-1500 verða lagðar fram og svarað með rannsóknum á fornleifum og vistkerfi. Sú fyrri er hvort til hafi orðið ný undirstétt hjáleigu- eða hjábýlafólks á tímabilinu 1100-1400, og sú síðari er um afleiðingar svartadauða 1402- 1404 á félagskerfið, þar sem ritaðar heimildir virðast gefa til kynna að það samfélag sem fyrir var hafi nánast þurrkast út og byrjað hafi verið upp á nýtt. Hvernig endurspeglast slíkur atburður í fornleifum og vistkerfi?



laugardagur, 21. janúar 2017

Frá ráðstefnu um hungursneyðir í Turku


Í síðustu viku kom ég frá Finnlandi, þar sem ég sat alþjóðlega ráðstefnu um hungursneyðir. Þáttakendur komu víða að, en voru flestir frá Írlandi, Íslandi, Svíþjóð, Finnlandi og Eistlandi. Fluttir voru fyrirlestrar um rannsóknir á hungursneyðum í þessum og fleiri löndum, t.d. á Krít, Indlandi og víðar. Ráðstefnan stóð í þrjá daga og var bæði fróðleg og skemmtileg. Hún var haldin í Turku, sem á sænsku nefnist Åbo. Turku er hin forna höfuðborg Finnlands og stendur á fallegum stað við ána Aurajoki.
Áhugi íslenska hópsins beindist að rannsóknum á hungursneyðum á Íslandi á 17. og 18. öld. Við fluttum erindi um hungursneyðarnar 1696-1701 og 1752-1759, sem undirritaður flutti, og um hungursneyðina í Móðuharðindunum, sem Ólöf Garðarsdóttir flutti. Erindi hennar var eins og vænta mátti stórfróðlegt og forvitnilegt. Hún benti t.d. á að fleiri karlmenn hefðu látist í hungursneyðum á Íslandi en konur, bæði í Móðuharðindum og öðrum harðindum á 18. öld. Þá kom fram í erindi hennar að áhrifin af Móðuharðindum hefðu verið langmest á tveimur svæðum, annars vegar í eldhéraðinu, Vestur-Skaftafellssýslu, og hins vegar í héruðum norðan lands, Þingeyjarsýslu, Eyjafjarðarsýslu, Skagafjarðarsýslu og Húnavatnssýslu. Á þessum svæðum dó mestur hluti bústofns og fjöldi fólks varð að flýja þessi héruð. Margt þeirra féll úr hungri eða dó úr hungursóttum.
Guðmundur Jónsson sagnfræðingur flutti erindi þar sem hann gaf yfirlit yfir söguritun um hungursneyðir á Íslandi og kenningar á þessu sviði. Það var inngangserindi ráðstefnunnar.
Rannsóknin á hungursneyðinni 1696-1701 er skammt á veg komin, en frumniðurstöður eru mjög áhugaverðar. Þess ber að geta að hungursneyðin á Íslandi á þessum tíma var síður en svo eina hungursneyðin í Evrópu á þessum tíma. Hungursneyðir voru um alla norðanverða Evrópu, í Skotlandi, Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Eistlandi og líklega Rússlandi á áratugnum 1690-1700. Sama gildir um hungursneyðina 1602-1605, sem var af völdum eldgoss í Perú, hún geisaði um alla Norður-Evrópu og mun hafa verið enn verri en sú um aldamótin 1700.
Meðal heimilda um hungursneyðina 1696-1701 á Íslandi eru annálar, en fjallað er um vitnisburð þeirra í ritum þeirra Hannesar Finnssonar, Mannfækkun af hallærum frá 1796, og í riti Þorvaldar Thoroddsen, Árferði á Íslandi í þúsund ár. Einnig hefur Lúðvík Kristjánsson fjallað um fiskbrestinn sem varð 1685-1702 í grein frá 1701. Það var óvenjulegur fiskbrestur sem jók til mikilla muna á neyðina.
Ein heimild um hungursneyðina hefur þó lítið verið athuguð fram að þessu, en það er Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns. Þar eru taldar upp allar jarðir sem fóru í eyði á harðindaskeiðinu 1685-1702. Þegar þessi heimild er athuguð og dreifing eyðibyggðarinnar athuguð, kemur fram afar óvænt mynstur. Eins og stendur er aðeins búið að taka saman tölur úr þremur sýslum norðan lands, Þingeyjarsýslu, Eyjafjarðarsýslu og Skagafjarðarsýslu, en einnig úr Ísafjarðarsýslu og Árnessýslu.
Skemmst er frá því að segja að dreifing eyðibyggðarinnar sem skráð er í Jarðabókinni sýnir mjög óvænt mynstur. Nær engar jarðir fóru í eyði í Ísafjarðarsýslu, sem þó var umflotin ísi mörg þessara harðindaára. Hins vegar fóru margar jarðir í eyði í sýslunum þremur norðan lands, en það gerðist fyrst og fremst í nokkrum hreppum, þeim sem lágu yst og nyrst, á Skaga, í Fljótum, Siglufirði og Ólafsfirði, og á Melrakkasléttu og í Þistilfirði. Nær engar jarðir fóru í eyði í innsveitum norðanlands, en Norðurland var þó eins og Ísafjarðarsýsla umflotin ísi og þar geisuðu miklir kuldar. Það hafði hins vegar lítil áhrif á byggð í innsveitum norðan lands, sem er mjög athyglisvert og krefst að sjálfsögðu frekari rannsókna. Einnig er athyglisvert hversu gjörólíkt þetta mynstur er afleiðingum Móðuharðinda, þegar innsveitir Norðurlands urðu mjög hart úti.
Um 1700 fóru hins vegar fjöldi jarða í eyði í Árnessýslu, í hlýjustu sveitum landsins, sérstaklega í efri hluta Árnessýslu, Hreppum, Biskupstungum og Grímsnesi. Þetta eru líka mjög óvæntar niðurstöður, því þrátt fyrir mikinn kulda þá var ísinn ekki eins þrálátur við suðurströndina og fyrir vestan, norðan og austan. Þar gæti fiskbresturinn hafa komið inn í.
Þessar frumniðurstöður gefa sem sagt sannarlega tilefni til að halda áfram rannsóknum á hungursneyðinni 1696-1701 og öðrum hungursneyðum á 17. og 18. öld. Þessar rannsóknir hafa verið mjög vanræktar síðan Hannes Finnsson skrifaði Mannfækkun af hallærum 1796.

mánudagur, 21. nóvember 2016

Var landið albyggt 60 árum eftir fund þess?


Ari fróði segir í Íslendingabók sinni eitthvað á þá leið að landið hafi verið albyggt 60 vetrum eftir fund þess. Fræðimenn hafa mikið deilt um það hvort Ari fróði hafi hér átt við að landið væri albyggt fólki, svo mörgu að fleiri hafi ekki getað búið þar, eða hvort meint sé að landið hafi verið að fullu komið í eigu einhverra ákveðinna aðila. Allt land hafi verið orðið hluti af einhverri jörð.
Ekki hefur enn verið skorið úr þessari deilu. Eins og fram kom í síðasta pistli hafnaði fræðimaðurinn Ólafur Lárusson þeirri skoðun þegar um 1930 að landið hafi verið albyggt fólki þegar 60 árum eftir landnám og studdi það mörgum rökum. Hafa sagnfræðingar að mestu haldið sig við skilning Ólafs síðan, að minnsta kosti hefur enginn gert tilraun til að endurreisa þá hugmynd að landið hafi verið byggt 60 000 íbúum þegar um 965, eins og Björn M. Ólsen hélt fram upp úr 1910 og Ólafur var að mótmæla.
Ari fróði ritaði Íslendingabók skömmu eftir 1100, nánar tiltekið eftir 1122. Á milli 930 og 1122 eru nærri 200 ár. Frá landnámi og til 1000 eða svo voru alls engar ritheimildir skráðar á landinu, og það var ekki fyrr en upp úr 1050 eða svo, að læsir og skrifandi menn yrðu nokkurn veginn aðgengilegir, eftir að kristni og kirkja var búin að festa sig í sessi. Afar fá skjöl eru hins vegar varðveitt frá 11. öld og í rauninni hefst ritöld ekki hér á landi fyrr en um 1100. Að minnsta kosti eru varðveittar ritheimildir nær engar frá því fyrir 1100.
Hvernig gat Ari fróði þá vitað hvort landið hafi verið albyggt um 930? Stutta svarið við þeirri spurningu er að það gat hann ekki haft neina hugmynd um, hvorki hvort landið var fullnumið af fólki svo fleiri gátu ekki lifað af því, né hvort allt land var þá komið í eigu einhvers ákveðins aðila. Fullyrðing hans er algerlega marklaus og ekki studd neinum samtímaheimildum. Rannsóknir mannfræðinga á munnlegri geymd sýna að ekkert mark er takandi á slíkum fullyrðingum byggðum á munnlegri geymd út frá fræðilegum sjónarhóli.
Málið er því leyst, deilan er til lykta leidd: Það er ekkert mark takandi á Ara fróða hvað varðar stöðu byggðar á Íslandi um 930. Álíka mikið mark er takandi á riti því sem kallast Landnáma og lengi var talin geyma allan sannleik um upphaf byggðar á Íslandi. Landnemar hefðu verið 400, námu ákveðið landsvæði sem er nákvæmlega tiltekið um allt land, settust að á tilteknum bæjum og ég veit ekki hvað og hvað.
Ef ekkert er að marka Ara fróða hvað varðar upphaf byggðar þá er enn minna að marka Landnámu. Hún er nefnilega rituð enn síðar en Íslendingabók. Um 1200 hófst ritun Íslendingasagna, sem ganga upp í Landnámu, þannig að samræmi er milli frásagna um landnám í Íslendingasögum annars vegar og Landnámu hins vegar (nema í Svarfaðardal, þar sem Svarfdæla greinir öðru vísi frá landnámi en Landnáma) en þekktar Landnámugerðir eru einmitt taldar ritaðar á seinni hluta 13. aldar. Um 1270 voru 400 ár liðin frá því að landið var numið, og má rétt ímynda sér hversu áreiðanlegar sagnir um landnámsmenn voru þá orðnar.
Landið var hins vegar í byggð um 930, um það er engum blöðum að fletta. Landnám hófst um 870, í síðasta lagi. Fjölmiðlar eru mjög duglegir að birta fréttir um fornleifafræðinga sem hafa komist að því að landið hafi verið komið í byggð fyrir 870, og má vel vera að fólk hafi verið hér á ferð eitthvað fyrir 870. Þetta hefur þó enn ekki hlotið almenna viðurkenningu í fræðasamfélaginu.
Það fræðilega vandamál sem rætt hefur verið á grundvelli ummæla Ara fróða er að sjálfsögðu fullgilt fræðilegt umfjöllunarefni. Það er mikilvægt að átta sig á því hversu hratt landið byggðist og hver fólksfjölgun var á fyrstu öldum Íslands byggðar, og raunar alveg þangað til farið var að telja fólk á vegum ríkisvaldsins árið 1703. Æ meiri gögn hafa verið að koma í ljós hvað þetta varðar eftir því sem fornleifafræðirannsóknum og rannsóknum á fornvistfræði hefur fleygt fram, en það breytir því ekki að staðhæfing Ara fróða hefur ekkert sjálfstætt fræðilegt gildi sem heimild um stöðu byggðar 60 árum eftir landnám.

Íbúafjöldi á Íslandi í fornöld, og líka í Svarfaðardal


Talsverður fjöldi Svarfdælinga hefur fundist í hinum ýmsu kumlum í sveitinni. Rúmlega tugur kumlateiga eða kumlastaða hefur fundist, með allt að 13 manns lögðum til hinstu hvílu. E.t.v. þekkjum við hinstu legstaði 75-100 10. aldar Svarfdælinga eða svo. Nýjar aldursgreiningar úr kumlum á Dalvík benda til að kumlin þar séu líklega frá síðari hluta 10. aldar, en áður höfðu niðurstöður bent til að þau væru sennilega frá því um 920.
Í kumlunum er að finna mun fleiri karlmenn en konur og þar er engin börn að finna. Slík ójöfn skipting kynja og milli aldursskeiða er vel þekkt frá kumlum á Norðurlöndum og því líklegt að konur séu færri í gröfunum en bjuggu í raun í dalnum á 10. öld. Mannfjöldinn í kumlunum bendir því til þess að talsverður íbúafjöldi hafi verið í Svarfaðardal, að minnsta kosti þegar komið var fram á 10. öld. Það hafi verið búið á að minnsta kosti 10-12 jörðum og um 1000 höfðu þrjár til fjórar kynslóðir búið í dalnum, ef landnámið þar var um eða upp úr 870.
Íbúatala á hverri jörð á miðöldum er ekki þekkt nákvæmlega. Talið hefur verið að í 10. aldar skála í Reykjavík hafi búið 6-8 manns, eftir því sem Orri Vésteinsson gerir ráð fyrir. Í Reykjavík voru fleiri en eitt íbúðarhús á 9. og 10. öld, og nýir fornleifafundir þar sýnast benda til að þar hafi jafnvel getað verið dálítið þorp. Álit fornleifafræðinga er að í hverju heimili hafi þó ekki verið fleiri en þetta 6-8, í mesta lagi 5-10. 
Heimildir um búskaparumsvif í Svarfaðardal benda einna helst til að á síðari hluta 10. aldar, kannski um og upp úr 950 hafi að minnsta kosti 10-15 jarðir verið í byggð. Ef til vill hafa sums staðar verið tvíbýli eða jafnvel fleiri býli, kannski sérstaklega á Upsum og þar í grennd, því nokkuð algengt var á landnámsöld að menn byggju í smáþorpum með allt að 4 íbúðarhúsum. Það geta því hafa verið 10-20 fjölskyldur í heild. Ef í hverri fjölskyldu voru 6-8 manns var íbúafjöldinn á bilinu 60-160. Þetta er allnokkuð samfélag.
Margir sagnfræðingar hafa fjallað um það hversu margir íbúar hafi verið á Íslandi á miðöldum. Það gerði Jón Sigurðsson forseti m.a. og hélt að íbúar hefðu verið um 100.000 um 1100. Björn M. Ólsen gerði ráð fyrir að íbúar hefðu verið um 60.000 um 965, um 78.000 rúmri öld síðar og um 72.000 um 1311. Björn ritaði um þessi mál í upphafi 20. aldar og byggði áætlanir sínar á tveimur bændatölum sem varðveist hafa frá miðöldum. Það fyrra er frá því um 1100 og er það ,m.a. að finna í Íslendingabók Ara fróða. Niðurstöður sínar um íbúafjölda um 1100, nánar tiltekið 1095, fékk Björn með því að margfalda fjölda þingfararkaupsbænda um 1095 með hlutfalli milli skattbænda og heildaríbúafjölda á 19. öld.
Almenn hugmynd alveg fram til 1920 eða svo var að íbúar hefðu verið mjög margir strax í upphafi landnáms, og var það byggt á orðum Ara fróða í Íslendingabók um að landið hefði orðið albyggt á 60 árum. Menn trúðu þeim orðum, líkt og menn tóku Íslendingasögunum sem sönnum frásögnum um landnámið og atburði á
Ólafur Lárusson ritaði um þessi mál á 3. og 4. áratug 20. aldar og taldi að hugmyndir um þetta mikinn mannfjölda á miðöldum stæðust ekki. Hann taldi að áætlun Björns M. Ólsen um mannfjölda út frá þingfararkaupsbændatali 1095 stæðist ekki, því forsendur hefðu verið allt aðrar um 1100, miklu fleiri sjálfseignarbændur þá en á 19. öld, og fleira taldi hann til. Hann taldi að íbúar hefðu sjaldan orðið fleiri á Íslandi en 50.000, en að mjög erfitt væri að áætla tölu íbúa á miðöldum. Hann var algerlega ósammála þeirri hugmynd að íbúar hefðu verið flestir í upphafi en síðan farið fækkandi. Ólafur rakti byggðaþróun í Laxárdal eftir ritheimildum (sem enginn trúir nú) og notaði þá rakningu til að rökstyðja þá hugmynd að íbúum hefði fjölgað smám saman á 10. og 11. öld.
Nýjar áætlanir um þetta mál hafa ekki verið margar, en þó tóku þeir Thomas McGovern og Orri Vésteinsson sig til og rituðu um mannfjölda á landnámsöld út frá viðamiklum rannsóknum sínum á landnámsbyggð í Mývatnssveit. Þeir telja að íbúar hafi verið um 24.000 á 10. öld. Um þetta var fjallað í tímariti og umsagnir um áætlun þeirra birtar, og voru ekki allir fræðimenn sem tjáðu sig sammála áliti þeirra. Engu að síður verður að teljast kominn tími til að endurskoða fornar áætlanir, sem eingöngu byggðu á gögnum sem menn trúa ekki lengur, en nú eru komnar miklar fornleifarannsóknir á mörgum sviðum sem gefa tilefni til endurskoðunar.

mánudagur, 14. nóvember 2016

Daniel Bruun á Dalvík


Margir kannast við bókina Íslenskt þjóðlíf í þúsund ár, sem bókaútgáfan Örn og Örlygur sendi frá sér fyrir allnokkru síðan. Þar birtist fjöldi ljósmynda og teikninga sem danski fræðimaðurinn Daniel Bruun tók og gerði á ferðum sínum hér á landi skömmu eftir aldamótin 1900. Færri vita líklega að danska þjóðminjasafnið heiðraði það íslenska á 150 ára afmæli þess árið 2013 með því að skanna og setja á netið allar teikningar og myndir sem Daniel Bruun skildi eftir sig úr Íslandsferðunum. Það er gríðarlegur fjársjóður, því að myndirnar í Íslensku þjóðlífi eru aðeins brot af þeim þúsundum mynda sem Bruun kom með frá Íslandi.
Vefslóðin er http://samlinger.natmus.dk/search?q=Island. Að sjálfsögðu má slá inn leitarorð, eins og „Eyjafjarðarsýsla“ eða „Dalvík“ til að skoða hvað er að finna á hverju svæði fyrir sig. Skönnunin var mikil vinna, en unnt er að hlaða niður öllum myndum í miklum gæðum og aðgangur er algerlega frjáls.
Það var Daniel Bruun fornleifafræðingur sem ásamt með Finni Jónssyni prófessor og norrænufræðingi við Kaupmannahafnarháskóla varð fyrstur til að rannsaka kuml á Dalvík. Í grein í danska tímaritinu Geografisk Tidskrift, 20. bindi 1909-1910 sem aðgengileg er á netinu greina þeir Bruun og Finnur frá rannsóknum sínum á Íslandi 1907-1909. Fyrst er sagt frá rannsóknum á Gásum, þar sem þeir könnuðu búðarústir og teiknuðu upp kort af svæðinu. Einnig grófu þeir í rústirnar og fundu leifar af eldstæðum. Þá er greint frá rannsóknum þeirra á Hofstöðum í Mývatnssveit, en yfirskrift þess kafla er „Udgravning af Gudehuset paa Hofstadir ved Myvatn.“ Þeir rannsökuðu hinn mikla skála á Hofstöðum sem er stærsta hús sem fundist hefur frá víkingatíma á Íslandi. Þá hafði ekkert heiðið hof fundist á Norðurlöndum, en slíkar byggingar hafa fundist síðan.
Daniel Bruun var afkastamikill fornleifafræðingur, var upphaflega í danska hernum og ferðaðist mikið á hans vegum. Mest af fornleifarannsóknum Bruun var á Íslandi, í Færeyjum og á Grænlandi, en hann var sá fyrsti sem kortlagði hinar umfangsmiklu rústir af byggðum norrænna manna þar, og lagði þar með grundvöll að rannsóknum á þeirri byggð.
Á Dalvík fundu þeir mikinn heiðinn grafreit, sem er sá stærsti sem fundist hefur á Íslandi. Þeir Daniel Bruun og Finnur Jónsson töldu að grafreiturinn í Brimnesslandi hefði verið fjölskyldugrafreitur, upphaflega í landi Upsa. Meðal þess sem þeir fundu var bátsgröf, en það var fyrsta bátsgröf sem fundist hafði á Íslandi. Fram kemur að þrjár grafanna eða kumlanna sáust vel sem lágir haugar á yfirborði.
Þeir lýsa staðsetningu kumlateigsins, þar sem sér út í mynni Eyjafjarðar og í vestur heim til bæjanna Upsa og Brimness, en Upsir séu í um 1000 metra fjarlægð, og bak við bæinn gnæfi fjöllin. Brimnessáin renni um láglendið milli bæjanna tveggja og nái til sjávar norðan við grafreitinn, en þurr lág sé sunnan við grafirnar og nái til sjávar.
Líkin hafi verið lögð með fætur í norður, þannig að andlitin vissu móti norðri. Grafreiturinn sé afar áhugaverður, jafnvel þótt graftrargóssið sé mjög takmarkað að magni og verðmæti miðað við grafgóss úr heiðnum gröfum sem fundist hafi í Skandinavíu. Þetta sé tilfellið í öllum íslenskum kumlum sem fundist hafi og komi því ekki á óvart.
Þarna hafi verið grafnar alls 13 manneskjur, bæði karlar og konur, og megi þekkja karlagrafirnar af vopnum sem grafin voru með þeim, spjótum. Einnig séu þar blýlóð sem sýni að þessir menn hafi stundað kaupskap. Í kvennagröfunum séu perlur úr gleri og rafi og málmspennur, einnig steingrýtur eða steinpottar.
Þeir félagar tengja frásagnir Svarfdælu við vitnisburð kumlanna, t.d. sé sagt frá bardaga í Láginni sunnan við kumlateiginn og vera má að sumar grafanna séu orpnar yfir þá sem féllu í þeim bardaga. Einnig benda þeir á að Karl rauði hafi verið grafinn í „skipi“ skv. sögunum, en hann hafi hlut í Upsum. Hann hafi hins vegar beðið um að vera grafinn á Karlsá, annarri jörð í eigu hans utar á Upsaströnd, því þaðan myndi hann geta fylgst betur með skipaferðum um fjörðinn.
Þessar rannsóknir þeirra Daniel Bruun og Finns Jónssonar vöktu fyrst athygli á Dalvík sem mikilvægum fundarstað fornleifa, en síðan hefur fjöldi annarra kumla fundist á Dalvík og í Svarfaðardal. Á Dalvík er langstærsta kumlasvæði landsins, með um 20-25 kuml. Eitt þeirra fundu þeir Bruun og Finnur, en það týndist aftur. Það er kumlið sem þeir lýsa við Lækjarbakka. Spennandi væri að leita það uppi.

fimmtudagur, 3. nóvember 2016

Krambúðarbækurnar og dúkkuföt prestsdótturinnar


Í síðasta pistli var örlítið vikið að stöðu einokunarverslunarinnar á Íslandi á 18. öld, og verslun Dana á Íslandi á 19. öld. Minnst var á heimildir um verslun frá 18. öld. Til eru alveg óvenjulegar heimildir frá árabilinu 1759-1763, sem sýna verslun allra heimila sem yfir höfuð stunduðu verslun við kaupmenn, á öllum höfnum á öllu landinu. Þetta eru 100 þykkar og stórar bækur, sem geymdar eru í Rigsarkivet eða Ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn. Þessar bækur eru á safninu kallaðar Krambodbøger, Krambúðarbækur.
Þar má sjá verslun á Hofsósi og Húsavík, Vestmannaeyjum og Eyrarbakka, Vopnafirði og Djúpavogi, Akureyri og Keflavík, og öllum hinum höfnum einokunarverslunarinnar. Hver viðskiptavinur, bóndi, bóndakona eða vinnufólk, hefur eina síðu á hverju ári, og þar er fært inn hversu mikið viðkomandi bóndi kaupir og selur. Innkaupin eru yfirleitt yfirgnæfandi mjöl, langmest rúgmjöl. Kvarttunna er algeng, einnig hálftunna af rúgi og ef menn eru sérlega vel fjáðir þá er það heiltunna, og þá stundum líka eitthvað af hveiti. Eftir því sem menn eru betur stæðir eykst verslunin og fjölbreytni varningsins sem er keyptur líka. Menn kaupa sápu, timbur, brennivín, tóbak, skonrok, veiðarfæri, hefla, pappír og fleira.
Einn prestur í Skagafirði, Sigfús Sigurðsson á Ríp í Hegranesi, átti dóttur og keypti handa henni föt á dúkkuna hennar. Þetta er skráð í Krambúðarbókinni á Hofsósi sem „dukketøj“.  Ekki er hægt að lýsa slíkum kaupum öðru vísi en því að þetta hafi verið lúxusneysla, óvenjulegt hefur verið fyrir litla stelpu í íslenskri sveit að geta klætt dúkkuna sína í föt úr búðinni, líklega fínan kjól eins og þeir tíðkuðust í útlandinu um 1760. Þetta gefur líka innsýn í samband prestsins við dóttur sína, honum hefur líklega þótt undur vænt um litlu stelpuna sína.
Séra Sigfús var þá um þrítugt, átti konu og tvö börn, og þrennt vinnufólks var á heimilinu. Þar var líka einn ómagi. Athygli vekur mikið magn af víni og koníaki sem presturinn keypti í einokunarversluninni á Hofsósi. Ekki er víst að Sigfús eða kona hans hafi verið drykkjufólk, þótt prestar hafi í gamla daga verið þekktir fyrir það að þykja sopinn góður. Líklegra er að presturinn hafi viljað geta boðið gestum og gangandi í staupinu, kannski eftir messu á sunnudögum, kannski við önnur tækifæri.
Til að fjármagna dúkkufatakaupin og önnur kaup seldi Sigfús sauði. Þeir voru mikilvægasti hluti þeirrar framleiðslu sem hægt var að leggja inn í verslunina, en líka var þar lagt inn talsvert af ullarafurðum, sokkum, vettlingum og peysum sem prjónuð voru á bænum. Prjónaskap lærðu Íslendingar af þýskum kaupmönnum og sæförum á 16. öld, líklega kaupmönnum frá Hamborg, en á 16. öld var Ísland afar mikilvægt Hamborgurum. Stór hluti verslunar þeirra var þá við landið og mikil umsvif í kringum Íslandsverslun í borginni. En það er annað mál.
Búið hjá séra Sigfúsi á Ríp var að líkindum ekkert smábú. Þar voru árið 1713 sex kýr, tvö naut, 67 ær, 46 sauðir og hvorki fleiri né færri en 19 hestar, eins og vera ber í Skagafirði. Líklega var búið álíka stórt um 1760. Varningurinn sem lagður var inn í versluninni var miðað við þetta fremur takmarkaður að magni. Aðeins lítill hluti af framleiðslu búsins var lagður inn, og í heildina var neysla heimilisins af matvörum úr versluninni, t.d. rúgbrauði, mjög lítil miðað við heildarneysluna.
Árið 1761 voru 371 heimili í Skagafirði, og þar af versluðu 224 við einokunarverslunina. 147 heimili versluðu alls ekki neitt. Verslun flestra þessara heimila var líkari verslun nágranna Sigfúsar á Ríp, Salbjargar í Vatnskoti, sem lagði inn einn sauð eða eitthvað smávegis af prjónlesi, og fékk í staðinn hálfa tunnu af rúgi. Verslun hennar taldist upp á 24 fiska, á meðan Sigfús verslaði fyrir 3 eða 4 fiskhundruð (eitt fiskhundrað taldist 120 fiskar), eða u.þ.b. tuttugu sinnum meira en Salbjörg.
Verslun Sigfúsar var þó ekkert á við verslun manna eins og sýslumannsins í Skagafirði, Jóns Snorrasonar, sem verslaði við konungsverslunina á Hofsósi fyrir 124 fiskhundruð. Verslun hans, Hólastóls og biskupsins sjálfs nam alls 425 hundruðum, á meðan verslun allra bænda í Skagafirði, nærri 400, nam rétt tæplega 800 hundruðum, 794 hundruðum nákvæmlega tiltekið. Þetta sýnir vel eðli verslunarinnar, hún var að stórum hluta í höndum örfárra aðila, en flesta bændur skipti hún litlu máli. Þetta breyttist svo heldur betur á 19. öld.

föstudagur, 28. október 2016

Staða Dana á Íslandi: Var hún sterkari á 19. öld en fyrr eða síðar?


Hér á svarfdælsku miðaldabloggi hefur heldur verið lítið að gerast undanfarið, enda nóg að gera við að ganga frá bók um svarfdælskar miðaldir. Hún er nú á leið í prentun og kemur út fyrir jól.
Hugmyndin er að taka þráðinn upp að nýju, en með nokkuð öðru sniði: Ramminn verður stærri, bloggið mun leika lausum hala og verða meir almennt sagnfræðiblogg, vettvangur fyrir ýmsar vangaveltur höfundar á þessu sviði. Svarfaðardalur verður svo sem auðvitað aldrei fjarri og vonandi verður tilefni til að fjalla um svarfdælska sögu með ýmsum hætti - að minnsta kosti tengja byggðarlagið inn í umræðuefnið hverju sinni.
Höfundur er þáttakandi í verkefni sem fjallar um sambúð manns og umhverfis í Mývatnssveit. Þetta verkefni er þverfaglegt sem kallað er, þ.e. þeir fræðimenn sem eru í rannsóknarhópnum koma hver úr sínu fagi, bókmenntafræðingurinn Viðar Hreinsson, fornleifafræðingurinn Megan Hicks, veðursagnfræðingurinn Astrid Ogilvie og vistfræðingurinn Ragnhildur Sigurðardóttir auk undirritaðs. Meðal þess sem til athugunar er má telja votlendi umhverfis Mývatn og sérstaklega votlendið sunnan við Mývatn sem nefnist Framengjar. Þetta tengir sögu Mývatns við sögu Svarfaðardals, því votlendi var líka mikilvægt í svarfdælskri sögu. Svarfdælingar geta þó ekki státað af áveitukerfi eins og Mývetningar, en Benedikt Sigurðarson frá Grænavatni sýndi okkur ýmsar leifar þess í vettvangsferð rannsóknarhópsins norður til Mývatns seint í ágúst.
Mývargurinn var óvenju friðsamur og meinlaus og við gátum því í góðum friði og góðu veðri skoðað votlendið sunnan við Mývatn, gulstörina þar og tekið sýni af gróðrinum til frekari athugana. Benedikt sýndi okkur leifar af stíflum sem notaðar voru til að stýra rennsli Krákar og veita vatni hennar á engjalöndin. Áveiturnar voru í notkun langt fram á 20. öld. Síðan fórum við á skjalasafnið á Húsavík og skoðuðum mývetnsk, handskrifuð héraðsblöð frá upphafi 20. aldar. Þar kemur skýrt fram hvað Mývetningar töldu votlendið mikilvægt í búskap sínum.
Það sem hvað mesta athygli hefur vakið okkur fræðinganna í hópnum er það hversu gríðarlegur vöxtur var í mývetnsku efnahagslífi á 19. öld, svo sem eins og víða annars staðar á landinu á þeim tíma. Þetta kom meðal annars fram í stóraukinni nýtingu votlendis til útheysgerðar. Heimildir frá 18. öld sýna hins vegar að heldur var lítið að gerast og dauft yfir mannlífi í Mývatnssveit á þeirri öld. Andstæðan við 19. öldina virðist við fyrstu sýn vera nokkuð skörp, en vera má að það sé missýning og nánari athugun gefi til kynna einhverjar þær hræringar, sem á 19. öld gátu af sér einhverja öflugustu félagshreyfingu sem komið hefur fram hér á landi.
Á 18. öld var einokunarverslunin við lýði hér á landi og miklar heimildir til um verslun bænda við hana, þar á meðal verslun Mývetninga. Greining á þessum heimildum sýnir að einokunarverslunin var ef til vill fyrst og fremst tæki í höndum íslensku yfirstéttarinnar, landeigenda, til að koma ullar- og prjónavörum og fiski sem þeir fengu greiddar í landskuld í verð. Þáttaka almennra bænda í versluninni var afar lítil, stundum engin. Mývetningar tóku hins vegar nokkuð almennt þátt í versluninni, sem er ein vísbending um að ef til vill hafi síðari hræringar verið byrjaðar að láta á sér bæra. Verslun þeirra var alls ekki mikil frekar en annarra bænda.
Á 19. öld breyttist þetta allt. Þá hljóp mikill vöxtur í verslun með hvers konar afurðir frá Íslandi, og meðal annars sauðfjárafurðir Mývetninga, allt frá um 1820. Athyglisvert er að það gerðist allt undir ægishjálmi danskra verslunarfyrirtækja, sem einokuðu verslunina hver á sínu landsvæði. Í Þingeyjarsýslum var það fyrirtækið Örum og Wulff sem bæði stýrði vextinum og naut góðs af honum. Bændur nutu þess líka, en ekki í þeim mæli sem þeim fannst að hægt væri; því hófst hreyfing gegn danska valdinu sem lauk með því að dönsku fyrirtækin misstu tökin og kaupfélög bændanna sjálfra tóku verslunina yfir.
Á þessum tíma var dauft yfir íslenskri yfirstétt, sem hafði misst spón úr aski sínum. Dönsku verslunarfyrirtækin rökuðu til sín gróða en lágar landskuldir voru einu tekjur og lélegt hlutskipti íslensku landeigendastéttarinnar. Líklega hefur danska valdið á Íslandi aldrei verið sterkara en einmitt á þessum tíma, 1820-1880, og Ísland aldrei nær því að vera nýlenda Dana en þá. Þetta þarf að kanna nánar, en ég varpa þessu fram hér til umhugsunar, þetta er ennþá tilgáta.