sunnudagur, 10. janúar 2016

Skammvinn gullöld Möðruvallaklausturs í Hörgárdal á 14. öld


Um 1400 átti Möðruvallaklaustur í Hörgárdal 15 jarðir eða svo í Svarfaðardal og var sennilega stærsti einstaki jarðeigandinn á þessum slóðum. Möðruvellir urðu síðan fyrir gríðarlegu áfalli í Svartadauða og náðu sér aldrei sem kirkjustofnun en áttu alltaf slatta af jörðum í dalnum, sem svo urðu hluti af Möðruvallaumboði eftir að konungsvaldið tók yfir klaustrið 1550 og lagði niður klausturreksturinn. Hann samrýmdist ekki lúterskum grundvallarreglum.
Möðruvellir í Hörgárdal eru sennilega ein af landnámsjörðum í Hörgárdal. Landamerki jarðarinnar benda til þess. Möðruvellir eiga landræmu meðfram Hörgá niður með ánni fyrir neðan margar nágrannajarðir sínar, alveg niður að Ósi. Það gætu verið leifar af upphaflegri landareign Möðruvalla, sem hafi náð jafnvel norður að Hvammi, sem er önnur landmikil og hátt metinn jörð á þessum slóðum. Um það er erfitt að fullyrða.
Fátt er vitað um Möðruvelli á tímabilinu 870-1150 eða svo en mikill áhugi beinist nú að þeim vegna hinna umfangsmiklu klausturrannsókna sem eru í gangi á vegum Háskóla Íslands og Þjóðminjasafns. Möðruvellir urðu staður og aðsetur sóknarkirkju á 12. öld, þ.e. kirkjustaður með stórri sókn sem náði líklega um verulegan hluta Hvammshrepps. Annar kirkjustaður í Hvammshreppi var Arnarnes. Þar bjuggu höfðingjar og t.d. settist Sighvatur Sturluson þar að þegar hann flutti fyrst í Eyjafjörðinn 1215 og gerðist þar höfðingi.
Um 1290 eða svo voru Möðruvellir ennþá staður, eins og kemur fram í Lárentíusar sögu Kálfssonar, en árið 1295 var stofnað þar klaustur. Ekkert er vitað um staðinn Möðruvelli, t.d. hverjar voru jarðeignir staðarins áður en klaustur var stofnað þar og máldagi Möðruvalla er ekki í Auðunnarmáldögum. Fremur lítið hefur varðveist af skjölum frá fyrstu tíð Möðruvalla, og t.d. er ekki vitað hvaða jarðir voru gefnar til klaustursins í upphafi. Það er vitað í öðrum tilfellum, t.d. hvaða jarðir nunnuklaustrið á Reynistað fékk þegar það var stofnað 1296, ári síðar en Möðruvallaklaustur.
Fram kemur í Lögmannsannál að hluti jarða klaustursins var tekinn undan því, m.a. jarðir sem „Egill biskup og Einar prestur“ höfðu gefið því, ef til vill í stofngjöf. Sú ráðstöfun tengdist deilum milli Hólastóls og Möðruvallaklausturs um og upp úr 1330. Hólabiskup hugðist þá flytja klaustrið heim að Hólum en munkarnir á Möðruvöllum mótmæltu því og höfðu sitt fram. Klaustrið var áfram á Möðruvöllum. Þetta er nokkuð áhugavert mál og hefði að öllum líkindum styrkt mjög staðinn á Hólum hefði flutningurinn náð fram að ganga. En Eyfirðingar hefðu ekki verið ánægðir með þá niðurstöðu.
Möðruvallaklaustur óx mjög hratt að auði og jarðeignum og átti að öllum líkindum á milli 70 og 80 jarðir um 1400, flestar í næsta nágrenni í Hörgárdal og á Gálmaströnd, en einnig talsverðan fjölda í Svarfaðardal eins og áður getur og miklu víðar. Þá voru aðeins um 100 ár liðin frá stofnun klaustursins, og eignir þess voru t.d. mun meiri en eignir Munkaþverárklausturs, sem þó var mun eldra, stofnað á 12. öld. Hins vegar lauk þessari gullöld Möðruvalla skyndilega í upphafi 15. aldar þegar Svartidauði hjó sitt mikla högg. Um 1447 átti klaustrið ennþá milli 70 og 80 jarðir, en stór hluti þeirra var í eyði.
Eftir 1447 byggðust aldrei fleiri en rúmlega 50 jarðir eða svo í eigu klaustursins og margar jarðir gengu undan því, t.d. í Svarfaðardal. Margar eyðijarðir klausturins byggðust heldur aldrei aftur, eins og Oddsstaðir sunnan við Öxnhól í Hörgárdal, þar sem dr. Ramona Harrison fornleifafræðingur hefur gert fornleifarannsókn. Oddsstaðir höfðu verið í byggð allt frá 10. öld og var engin kotjörð.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli