mánudagur, 30. nóvember 2015

Hverjir réðu ríkjum í Svarfaðardal á 13. öld?


Eftir að Guðmundur dýri lét af völdum í Eyjafirði 1212 er ekki ljóst hverjir voru helstu höfðingjar þar um slóðir. Þorgrímur alikarl höfðingi á Möðruvöllum í Hörgárdal og helsti andstæðingur Guðmundar um 1200 var tengdur Oddaverjum, systir hans var ein kvenna Sæmundar Jónssonar í Odda.
Ekki er heldur ljóst hvort Guðmundur dýri hafði full völd í Eyjafirði þegar hann lét af völdum þar. Hann vann líklega aldrei afgerandi sigur á óvinum sínum. Síðasta orusta þeirra Þorgríms alikarls var á Grund í Eyjafirði og lauk með því að Þorgrímur og bandamenn hans handsöluðu Guðmundi sjálfdæmi um sættir. Þorgrímur var eftir það félaus og fór vestur í Skagafjörð og er úr sögunni. Stuðningsmenn Þorgríms sátu eftir og kemur ekki fram að þeir hafi játast undir vald Guðmundar að öðru leyti en því að allir guldu þá upphæð sem Guðmundur krafðist til sátta.
Síðustu afskipti Guðmundar af héraðsmálum sem sagt er frá voru varðandi mál í Svarfaðardal, það hver skyldi fara með Velli, hafa þar staðarvöld. Þar lenti Guðmundur og bandamenn hans í átökum við Brand Jónsson Hólabiskup, en svo fór að sátt varð um niðurstöðuna milli Brands biskups og Guðmundar.
Þegar næst fréttist af því hverjir réðu ríkjum í Eyjafirði og þar með Svarfaðardal, árið 1215, voru Sturlungar komnir til sögunnar. Sighvatur Sturluson hafði eflst mjög að völdum vestan lands, bjó fyrst í Hjarðarholti og síðan á Sauðafelli, en báðar jarðirnar eru í Dölum. Hann hafði Snorrungagoðorð og var því goðorðsmaður. Árið 1215 réðst hann til Eyjafjarðar, tók þar við héraðsvöldum og settist að á Möðruvöllum í Hörgárdal ásamt með Sigurði mági sínum Grímssyni. Síðan keypti hann Grund í Eyjafirði og bjó þar til elli. Á meðan hann lifði réði hann ríkjum um allt Norðausturland, bæði Eyjafjörð og Þingeyjarþing.
Athyglisvert er að Sighvatur skuli fyrst hafa sest að á Möðruvöllum, höfuðbóli Þorgríms alikarls, andstæðings Guðmundar dýra, og síðan á Grund í Eyjafirði. Hér hafa tengsl Sturlunga og Oddaverja líklega skipt máli. Oddaverjar höfðu áhrif í Eyjafirði og hafa líklega átt þátt í að Sighvatur tók við völdum þar. Andstæðingar Guðmundar dýra höfðu þar með í raun náð völdum í Eyjafirði.
Í Íslendinga sögu segir hins vegar að þá hafi margir stórbændur verið í Eyjafirði og hafi þeir ýfst heldur við Sighvat. „Þótti þeim hann eiga þar hvorki í héraði erfðir né óðul.“ Nokkuð segir frá málum í Eyjafirði eftir að Sighvatur tók þar völd. Átök urðu þegar Sturla Sighvatsson reyndi að ná sverði einu, Brynjubít, sem var í eigu Þorvarðar Örnólfssonar í Miklagarði. Þorvarður var „hinn besti bóndi í Eyjafirði“. Þorvarður var bróðir Jóns, sem bjó á Möðruvöllum í Eyjafirði, og hefur að minnsta kosti verið næst besti bóndi í Eyjafirði.
Þeir bræður, Sturla og Tumi, vildu kaupa sverðið Brynjubít en Þorvarður vildi ekki selja. Hann féllst þó á að lána Sturlu sverðið, en það dróst að hann afhenti Sturlu það. Fór þá Sturla inn í Miklagarð við þriðja mann, gekk inn í húsið og tók sverðið. Prestur einn þreif í sverðið, og kom Þorvarður síðan að og vildi ekki leyfa Sturlu að taka sverðið. Sturla var þá 18 ára. Hann var með exi og hjó með henni í höfuð Þorvarði, en öxin snéri vitlaust og kom hamarinn í höfuð Þorvarði. Lá hann sem dauður væri og blæddi mjög. Sturla fór við svo búið og tjáði Sighvati föður sínum málalyktir, en Sighvatur skammaði Sturlu fyrir tiltækið. Sighvati mun þó ekki hafa líkað þetta sérlega illa. 
Sighvatur féllu báðir í Örlygsstaðabardaga 1238 og Ásbirningar, helstu stuðningsmenn Guðmundar dýra á sínum tíma, náðu þá völdum í Eyjafirði.
Sigurvegarar í Örlygsstaðabardaga voru Kolbeinn ungi, foringi Ásbirninga, og Gissur Þorvaldsson foringi Haukdæla. Þetta bandalag náði nú völdum í Eyjafirði, nánar tiltekið Kolbeinn ungi, sem hafði völd um allt Norðurland alveg til fráfalls síns árið 1245. Þá náði Þórður kakali yfirráðum þar, og raunar nánast um allt land eftir Haugsnessbardaga alveg til 1252.
Þess má geta að Oddaverjar gáfu konungi goðorð sín árið 1249. Þingmenn þeirra voru að líkindum flestir á Rangárvöllum.
Þegar Þórður kakali fór utan á konungsfund árið 1250 skipaði hann Hrana Koðránsson yfir veldi sitt á Norðausturlandi, þar á meðal í Eyjafirði og þá Svarfaðardal. Lauk svo að Þorgils skarði fékk yfirráð yfir Eyjafirði 1256 og eftir það Noregskonungur árið 1258. Var Gissur Þorvaldsson þá skipaður jarl yfir lönd konungs á Íslandi.

fimmtudagur, 26. nóvember 2015

Guðmundur dýri lætur af völdum


Guðmundar sögu dýra lýkur með því að Guðmundur dýri gefur upp mannaforráð, flytur frá Bakka í Öxnadal, höfuðbóli sínu og gengur í klaustur í Þingeyraklaustri. Hann hafði þá lengi reynt að ná völdum um allan Eyjafjörð og hafði stuðning ýmissa héraðsmanna, sérstaklega Svarfdæla. Andstæðingar Guðmundar höfðu stuðningsmenn suður á Rangárvöllum og gátu leitað þangað ef í nauðir rak. Guðmundur dýri hafði hins vegar stuðning Ásbirninga í Skagafirði og kom Kolbeinn Tumason til liðs við hann oftar en einu sinni.
Helstu andstæðingar Guðmundar dýra voru fyrst Önundur Þorkelsson goðorðsmaður á Laugalandi og í Lönguhlíð (nú Skriðu) og síðan Þorgrímur Vigfússon alikarl, eftir að Guðmundur hafði drepið Önund í Lönguhlíðarbrennu. Þorgrímur var giftur Guðrúnu dóttur Önundar goða. Þau bjuggu fyrst á Möðruvöllum en voru síðast á Laugalandi í Þelamörk. Þorgrímur hafði stuðning Innfirðinga, þ.e. þeirra bænda sem bjuggu í Eyjafjarðardal, og það virðist hafa reynst Guðmundi dýra um megn að yfirvinna andspyrnu þeirra. Þorgrímur hafði líka stuðning bænda sums staðar í Hörgárdal og líklega einnig á Gálmaströnd og í Kræklingahlíð. Með honum í forystu í síðasta hluta átakanna milli Guðmundar dýra og andstæðinga hans var Þorsteinn Jónsson Loftssonar af ætt Oddaverja.
Ekki er víst að þeir Önundur og Þorgrímur hafi haft sama markmið og Guðmundur dýri, að sameina héraðið undir einni stjórn. Vera má að stuðningsmenn þeirra hafi að einhverju marki haft önnur markmið, þannig að um pólitískan ágreining hafi verið að ræða, ágreining um markmið og leiðir í héraðsstjórninni. Yfirleitt hefur verið gefið í skyn í umfjöllun um Sturlungaöld að valdabarátta aldarinnar hafi verið stefnulaus valdastreita milli höfðingja, en það er ekki víst. Athyglisvert er að stuðningur við Önund og Þorgrím var mestur á svæðum þar sem líklegt er að margir sjálfseignarbændur eða fjölskyldur sem áttu e.t.v. 1-5 jarðir eða svo gætu hafa búið.
Hins vegar blandaðist landspólitíkin beint inn í átökin í Eyjafirði við að Oddaverjar á Rangárvöllum studdu annan aðilann, en Ásbirningar í Skagafirði hinn. Haukdælir komu við sögu sem sáttasemjarar og einnig aðrar höfðingjaættir.
Skoðum aðeins framferði þeirra Guðmundar dýra og Kolbeins Tumasonar í einum þætti átakanna um Eyjafjörð. Veturinn eftir allraheilagramessu kom upp sá kvittur, sem átti uppruna sinn suður og inn í Eyjafirði, að Þorgrímur alikarl, sem verið hafði í skjóli Oddaverja á Rangávöllum um veturinn, væri kominn að sunnan með hundrað manna (120 manna lið), leyndist í Gnúpufellsskógum og ætlaði að ráðast á Guðmund.
Guðmundur dýri sendi þegar í stað boð til Kolbeins Tumasonar og bað hann að koma með allt það lið sem hann gæti úr Skagafirði. Sagan segir að á meðan Guðmundur beið komu Kolbeins og liðsafla hans hafi hann farið á Laugaland og rænt þar og tekið það bú sem þar var eftir og Þorgrímur átti. Einnig tók hann fé af þeim bændum sem stutt höfðu Þorgrím í átökum um haustið árið áður.
Þegar Guðmundur kom heim að Bakka að loknum ránum var Kolbeinn að koma með 50 manna lið vestan úr Skagafirði. Síðan kom í ljós að kvitturinn um að Þorgrímur væri komin að sunnan var ekki annað en kvittur, Þorgrímur var ekki kominn. Kolbeinn fór þó ekki þegar í stað vestur yfir Öxnadalsheiði heldur dvöldu hann og menn hans á Bakka um skeið. „Menn þeirra Guðmundar áttust illt við. Þeir deildu bæði um tafl og konur og stálust frá og skildust við það að hvorugum líkaði vel.“, segir sagan. Kolbeinn fór svo og menn hans um dalinn og „tóku af bóndum slíkt er honum sýnist … “.
Þessi saga um hættuna sem leyndist í Gnúpufellsskógum gefur tilefni til að minnast á atriði sem sjaldan er rætt í sambandi við Sturlungaöld. Það er taugaveiklunin og áfallastreituröskunin sem menn hljóta að hafa verið farnir að finna fyrir við slíkar aðstæður. Guðmundur hafði lengi barist fyrir völdum í Eyjafirði og á ýmsu hafði gengið. Margs konar ofbeldisverk og átök fléttuðust saman og mynduðu þann heldur ófagra átakabálk sem Guðmundar saga dýra greinir frá. Óstaðfestur kvittur dugði til að Guðmundur óskaði liðveislu Kolbeins og sýnir það vel þá taugaveiklun og óöryggi sem menn bjuggu við. Fleiri slíkar sögur eru í Sturlungu, þ.á m. í Guðmundar sögu dýra.
Slíkt gæti hafa átt þátt í að Guðmundur ákvað að hætta tilraunum sínum til að ná völdum í Eyjafirði.

þriðjudagur, 3. nóvember 2015

Guðrún á Arnarnesi og eiginmenn hennar 2. hluti


Í síðasta pistli var sagt frá því er Guðrún á Arnarnesi flúði fyrst til Gríms á Hofi og síðan norður á Siglunes til fyrrverandi tengdaföðurs síns, Þorvarðs kamphunds sem þar bjó. Þar var hún lengi, er sagt.
Þar kom þó að gerðar voru ráðstafanir til að Guðrún færi til bús síns og manns, hvort sem hún vildi eða ekki. Þorvarður fór á hverju sumri með fullt skip af föstumat, þurran fisk og annað þess háttar, inn til héraðs í Eyjafirði og seldi bændum. Nú fór hann af stað, sigldi inn eftir firði með skipið fullt af varningi og Guðrúnu með sér. Þorvarður fór til Gása, segir í Guðmundar sögu dýra. Þar var kaupskip þá statt, og tjaldaði Þorvarður og Guðrún var í tjaldi með honum.
Þórður Þórarinsson höfðingi í Laufási og synir hans þrír, m.a. Hákon, voru þar á kaupstefnunni, og bar svo við að þau Hákon og Guðrún rákust hvort á annað. Þau höfðu raunar oft sést áður, en aldrei ræðst við, en nú tóku þau tal saman. Hákon kom á hverjum degi til að tala við Guðrúnu á meðan þau voru þar.
Nú lauk kaupstefnunni. Þorvarður sigldi með Guðrúnu út með firði og setti hana af á Arnarnesi og lét hana fara heim til bónda síns og bús.
Nú tók Hákon Þórðarson að venja komur sínar í Arnarnes og „fór því fram vetur allan.“ Loks sagði Guðrún Hákoni að hann skyldi hætta að koma á meðan Hrafn væri á lífi, en gaf í skyn að hann mætti koma þegar Hrafn væri dauður. Hákon var fljótur að bregðast við áskoruninni og var það einn dag að þau sátu á þverpalli, Hákon og Hildibrandur bróðir hans og Guðrún og „töluðu lágt en Hrafn sat í bekk og reist spón því að hann var hagur maður.“ Risu þá upp þeir bræður og hafði Hákon spjót, sem hann stakk í brjóstið á Hrafni. Síðan veitti Hákon Hrafni annað sár, og varð svöðusár. Gengu þeir bræður út við svo búið
Hrafn tók öxi er þar lá hjá og hugðist ráðast á þá bræður en Guðrún bað hann að vera kyrran. Hrafn lá síðan þrjár nætur í sárum sínum og andaðist síðan.
Hákon og þeir Laufássmenn voru frændur Guðmundar dýra, Hákon var bróðursonur hans. Höfðingjum þótti uppgangur Guðmundar ærinn, hann hafði látið taka af Vöðlaþing og réði nú öllum málum í héraðinu sjálfur. Sagði hann að stórdeilur yrðu á þinginu og betra að hafa það ekki.
Andstæðingar Guðmundar hugðu sér gott til glóðar vegna vígs Hrafns, og brást Guðmundur við með því að bjóða bróður Hrafns, Erlendi presti til sín og bauð honum bætur eftir bróður sinn. Haldinn var fundur á Steinastöðum gegnt Bakka í Öxnadal og voru þar málsaðilar, þar á meðal Þórður bróðir Guðmundar og synir hans, þar á meðal Hákon sem vegið hafði Hrafn. Þórður gerði þá kröfu að Guðrún greiddi helming bóta fyrir Hrafn, því hún hefði ráðið honum bana. Það vildi Guðrún ekki.
Var þá gerð sætt um víg Hrafns og voru gerð 15 hundruð fyrir það. Guðmundur greiddi þegar sektina og lét þá Skagfirðinga hafa tvær jarðir sem hann átti, Hálfdanartungu (í Norðurárdal í Skagafirði) og Uppsali, næsta bæ við Silfrastaði. Höfðingjar í Eyjafirði uggðu ekki að sér og fréttu ekki af sættinni fyrr en eftir að henni var lokið.
„Síðan fékk Hákon Guðrúnar og var við hana harður og kvað sér eigi skylud það verða að hennar menn stæðu yfir höfuðsvörðum hans.“
Sagan af Guðrúnu er afar athyglisverð, því svo virðist sem sagan af henni, og af Þorgerði Þorgeirsdóttur á Brattavelli á Árskógsströnd sé sögð að einhverju marki til að vara við því að konur eigi jarðir og standi fyrir búi. Af því hljótist ekkert annað en vandræði. Á hinn bóginn má líka segja að saga Guðrúnar sé tragísk, í raun hetjusaga, því Guðrún sætti sig ekki við örlög sín. Hún sætti sig ekki við að forráðamenn sínir veldu handa sér eiginmann út frá hagsmunum þeirra og bandalagsþörf, og gerði uppreisn gegn því.
Í öðru lagi er afar athyglisvert að jarðirnar tvær, Arnarnes og Brattavöllur eða Brattavellir eins og hún hét síðar, skyldu hafa verið sjálfseignarjarðir. Hólastóll eignaðist síðar Brattavelli, á síðari hluta 15. aldar eða fyrri hluta þeirrar 16. Arnarnes komst í eigu Möðruvallaklausturs, sennilega á 14. öld. Ef til vill hafa margar jarðir á þessu svæði, Gálmaströnd og Árskógsströnd „út frá Svarfaðardal“ eins og segir í Guðmundar sögu dýra, verið sjálfseignarjarðir á 12. og 13. öld og jafnvel fram á þá 14.  

Guðrún á Arnarnesi og eiginmenn hennar


„Guðrún hét kona og var Þórðardóttir. Hún bjó á þeim bæ er heitir í Arnarnesi út á strönd frá Svarfaðardal. Hún var kvenna vænst og kurteisust. Hún átti þar bæði land og bú. Hún var ung kona og hafði tekið við föðurleifð sinni.“
Þannig segir frá í upphafi 101. kafla Sturlunga sögu (útgáfu Svarts á hvítu 1988), í Guðmundar sögu dýra. Ekki verður annað sagt en að klausa þessi sé mjög athyglisverð. Guðrún var sem sé ung kona, sem átti bæði jörð og bú sem hún hafði erft eftir föður sinn og rak búið sjálf.
Skömmu síðar segir í sögunni frá annarri konu, Þorgerði Þorgeirsdóttur á Brattavelli á Árskógsströnd. Þorgerður átti einnig landið sem hún bjó á, Brattavelli. Hún var móðir eiginkonu Helga prests í Stærra-Árskógi, sem hét Þórdís. Brattavöllur eða Brattavellir var ekki stór jörð, 20 hundruð að mati skv. jarðabókum frá síðari hluta 17. aldar, en telst 24 hundruð í Jarðabók Árna og Páls.
Arnarnes var stærri jörð, 33 hundruð og 40 álnir samkvæmt Jarðabókinni áðurnefndu, og þar eru sagnir um að hafi verið bænhús. Þangað lágu á miðöldum einhverjar jarðir til sóknar að því er virðist. Hvorug jörðin var hins vegar neitt höfuðból. Þetta voru báðar tiltölulega venjulegar jarðir af meðalstærð.
Guðrún á Arnarnesi var sem sagt góður kvenkostur, enda leið ekki á löngu þar til karlmenn komu til sögunnar. Fyrst greinir frá því að Símon Þorvarðsson, sem kallaður var kamphundur, bað Guðrúnar. Símoni er þannig lýst að hann hafi verið vinsæll maður. Jafnræði hafi þótt í hjónabandinu, þ.e. þau Guðrún og Símon höfðu svipaða þjóðfélagsstöðu að mati þeirra sem segja söguna eða eru heimildarmenn hennar. Guðrún sagði já og Símon flutti heim til hennar í Arnarnes.
Adam var þó ekki lengi í Paradís, því samkomulagið fór strax að versna og fljótlega fór Guðrún að flýja heimilið öðru hverju, en kom heim á milli. Skyldi Símon hafa beitt hana ofbeldi? Það er ekki víst, en annað eins þekkist úr Íslendingasögum, samanber kinnhest Gunnars á Hlíðarenda. Þó lagaðist sambúðin og segir sagan að þau hafi verið saman tvo vetur. Síðari veturinn hafi sambúðin gengið betur.
Því miður lauk hjónabandinu skyndilega og vofeiflega. Þegar kom fram á föstu síðari veturinn skorti föstumat og lagði Guðrún til að Símon maður hennar færi út á Siglunes til að sækja föstumat, en þar bjó faðir hans og þar var gnægð matar. Símon fór á bát út eftir firði, en báturinn sigldi á stein, brotnaði, og Símon fórst með tveimur húskörlum sínum. Guðrún var orðin ekkja.
Ekki leið á löngu þar til vonbiðlar gáfu sig fram, og sama sumar bað Guðrúnar maður sá er Hrafn hét og var Brandsson. Hann var vestan úr Skagafirði „úr sveit Gríms Snorrasonar“, og hafði Grímur hlutast til um bónorðið. „En Þorvarður Þorgeirsson var að umsjá með henni og færðu þeir mágar þau mál saman að Guðrún var föstnuð Hrafni.“ Guðrún virðist sem sagt ekki hafa haft mikið að segja um ráðahaginn, heldur hafi forráðamaður hennar úr hópi karla, Þorvarður Þorgeirsson, ráðið öllu um hann.
Sagt er í sögunni að brúðkaupsveislan hafi staðið á Hofi, þar sem Grímur átti heima, og að Guðrún hafi „hlaupið úr hvílu hina fyrstu nótt er Hrafn var innar leiddur.“ Þau fóru til Arnarness til „bús síns“. Hrafn tók við stjórn búsins. Guðrún var ekki ánægð með sambúðina, og um sumarið fór hún vestur til Hofs í Skagafirði (væntanlega Hofs á Höfðaströnd) og leitaði skjóls hjá Grími sveitarstjóra Hrafns. Grímur tók henni vel og var hún þar um hríð.
Síðan segir í sögunni: „Þá varð hún þess vör að Grímur ætlaði til skips í Eyjafjörð með hana. Hún vildi það eigi. Þá hljóp hún á brott á launog varð eftir fararskjóti hennar. Hún nam eigi fyrr staðar en hún kom út á Siglunes til Þorvarðs kamphunds (föður Símonar, fyrri manns hennar), kom þar grátandi og kvaðst þar unna hvívetna af Símoni. Þorvarður tók við henni og var hún þar lengi.“
Í næsta pistli heldur áfram að segja frá örlögum Guðrúnar á Arnarnesi. Ekki verður annað sagt en saga hennar sé athyglisverð og gefi til kynna ýmislegt um stöðu kvenna sem voru sjálfseignarbændur á miðöldum.